Embætti sérstaks saksóknara lagði í kvöld fram kröfu um gæsluvarðhald yfir Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og öðrum fyrrum starfsmanni Landsbankans.
Ríkisútvarpið sagði undir miðnættið að sá hefði verið Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans en segir nú að um sé að ræða Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumann eigin fjárfestinga bankans.
Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í samtali við Morgunblaðið laust fyrir miðnætti, að þá væri ekki ljóst hvort dómarinn teldi sig hafa forsendur til að taka afstöðu til gæsluvarðhaldskröfunnar strax eða hvort hann ákvæði að taka afstöðu innan 24 stunda. Ljóst var að mennirnir tveir yrðu í haldi lögreglu á grundvelli handtöku þar til niðurstaða dómarans lægi fyrir.
Embætti sérstaks saksóknara rannsakar nú kaup Landsbanka Íslands á hlutabréfum, gefnum út af bankanum og lánveitingum bankans til hlutabréfakaupa. Snýr rannsóknin að því að upplýsa hvort um sé að ræða brot sem varða auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans og brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns og fjölmörgum tilvikum.
Um er að ræða eftirtalin mál:
Lán til félagsins Hunslow S.A. og til Sigurðar Bollasonar voru meðal þeirra skuldbindinga sem fluttar voru frá Landsbankanum í Lúxemborg til Landsbanka Íslands. Kemur þetta fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en í tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara segir að húsleitir, sem fóru fram í dag, tengist m.a. lánum til þessara aðila.
Í skýrslunni segir að viðskiptavinir Landsbankans hafi falast eftir því að taka lán frá bankanum í gegnum Lúxemborg, þar sem litið væri á að bankaleynd væri sterkari þar en á Íslandi. Gekkst móðurfélagið, Landsbanki Íslands, í sjálskuldarábyrgð fyrir þessum lánum frá útibúinu í Lúxemborg og má því í reynd líta svo á að Landsbanki Íslands hafi veitt lánin.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði við skýrsluhöfunda að stór lán hefðu til margra ára verið afgreidd með þessum hætti, en hann segir að bankar í Lúxemborg máttu vera með ótakmarkaða áhættu á móðurfélagið, sem var öfugt við þær reglur sem voru til dæmis í gildi í Bretlandi.
Í aðdragandum að falli bankanna óskaði Landsbankinn í Lúxemborg eftir því að stórar áhættuskuldbindingar með ábyrgð móðurfélagsins yrðu fluttar að fullu til Íslands og voru lánin samanlagt virði 784 milljóna evra, eða um 120 milljarða króna á núvirði. Lán til Hunslow nam 13 milljónum evra til Sigurðar Bollasonar 33,8 milljónum evra og lán til Pro-Invest nam 40,8 milljónum evra.
Þá kemur fram í rannsóknarskýrslunni, að kaupréttarsamningar voru gerðir við stjórnendur og lykilstarfsmenn Landsbankans og náðu slíkir samningar hámarki á tímabilinu frá lokum árs 2007 og fram til falls bankans í október 2008 en þá náðu þeir til 13,2% hlutafjár í bankanum.
Landsbankinn kom hlutabréfum sem ætluð voru til að mæta skuldbindingum vegna kaupréttarsamninga starfsmanna fyrir í um átta aflandsfélögum. Segir rannsóknarnefndin, að það virðist hafa verið gert í því skyni að komast hjá flöggunarskyldu. Ekki verði annað séð en að öll félögin hafi í reynd lotið sömu stjórn.
Fyrr í nótt var sagt að krafist hefði verið gæsluvarðhalds yfir Steinþóri Gunnarssyni, sem einnig var yfirheyrður, en það var ekki rétt og er beðist afsökunar á því.