Héraðsdómur Reykjavíkur mun taka fyrir gæsluvarðhaldskröfu á hendur Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Ívari Guðjónssyni, fyrrverandi forstöðumanns eigin fjárfestinga bankans, kl. 14 í dag.
Mennirnir tveir verða í haldi lögreglu þar til niðurstaða dómarans liggur fyrir, þ.e. hvort úrskurða beri þá í gæsluvarðhald eður ei.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við mbl.is að rannsókn sé í fullum gangi og skýrslutökum verði haldið áfram í dag.
„Það var alveg ágætis gangur í skýrslunum í gær. Þetta gekk allt saman ágætlega,“ segir Ólafur, sem getur ekki tjáð sig frekar um málið.
Ekki liggur fyrir hversu lengi rannsókn málsins mun standa yfir. Ólafur bendir á að við skýrslutökur komi ávallt fram nýjar upplýsingar sem rannsakendur þurfi að skoða.
Embætti sérstaks saksóknara rannsakar nú kaup Landsbanka Íslands á hlutabréfum, gefnum út af bankanum og lánveitingum bankans til hlutabréfakaupa. Snýr rannsóknin að því að upplýsa hvort um sé að ræða brot sem varða auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans og brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns og fjölmörgum tilvikum.
Um er að ræða eftirtalin mál:
Yfirheyrslur í málinu stóðu yfir hjá embætti sérstaks saksóknara í allan gærdag.