Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði óskuðu eftir því á borgarráðsfundi í gær að borgarlögmaður kannaði heimild mannréttindaráðs til þess að leggja fram og samþykkja tillögur er hafa veruleg áhrif á starfsemi annarra sviða Reykjavíkurborgar.
Að sögn Sjálfstæðisflokksins er þetta gert í ljósi þess, að fyrir liggur í mannréttindaráði umdeild tillaga um samskipti trúfélaga og skóla. Ólíklegt þyki að slík heimild sé til staðar enda eigi ráðið fyrst og fremst að gegna ráðgefandi hlutverki samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar.