Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segir að ákveðin biðstaða ríki í kjaraviðræðunum á meðan Samtök atvinnulífsins neiti að tala í alvöru um nýja samninga nema látið verða reyna til fullnustu á hvort hægt verði að ná sameiginlegri launastefnu.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í fréttabréfi samtakanna að skynsamlegir kjarasamningar séu ein af helstu forsendum fyrir hækkun gengis íslensku krónunnar og þar með lágri verðbólgu og auknum kaupmætti.
Í frétaskýringu um samningamálin í Morgunblaðinu í dag segir Guðmundur, að stöðugleiki og vextir skipti marga hópa innan RSÍ verulegu máli. Kauphækkunin sé því ekki aðalatriðið heldur aukinn kaupmáttur. Þar gæti ríkisstjórnin spilað inn í án þess að tryggja hærri laun. Hann áréttar að ekki verði liðið að útvegsmenn taki kjarasamningana í gíslingu. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, tekur í sama streng.