Fjórir lögfræðingar, sem sendu fjárlaganefnd Alþingis álitsgerð um hugsanlegar niðurstöður dómsmála tengdum Icesave, segja að skiptar skoðanir séu í þeirra röðum um hver yrði líkleg dómsniðurstaða í máli, sem Eftirlitsstofnun EFTA kynni að höfða gegn Íslendingum.
„Sum okkar telja að talsverðar líkur séu á að slíkt mál vinnist en aðrir telja að þær líkur séu að sama skapi litlar. Við öll teljum þó að ekki verði útilokað að Íslandi verði dæmt áfall í slíku máli," segja lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson, prófessor, Benedikt Bogason, héraðsdómari og dósent, Dóra Guðmundsdóttir, aðjúnkt og Stefán Geir Þórisson, hrl, í álitsgerðinni.
Fram kemur í álitsgerðinni það mat lögfræðinganna, að ef Icesave-samkomulagið, sem nú er til meðferðar hjá Alþingi, verði ekki staðfest muni Bretar og Hollendingar mögulega höfða mál gegn Íslandi og Eftirlitsstofnun EFTA muni að öllum líkindum fara af stað með samningsbrotamál gegn Íslandi. Þá sé líklegt að Bretar og Hollendingar, og jafnvel fleiri þjóðir, muni halda uppi svipuðu andófi gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum og hingað til.
Lögfræðingarnir segja ekki hægt að útiloka að Íslendingar verði dæmdir til að greiða Icesave-inneignir að fullu. Hins vegar verði að telja, að erfitt geti orðið fyrir Breta og Hollendinga að ná fram dómi um ábyrgð íslenska ríkisins á innistæðum umfram þær rúmu 20 þúsund evrur, sem kveðið er á um í tilskipun Evrópusambandsins um innlánstryggingakerfi.
Lögfræðingarnir telja mögulegt að kröfur Breta og Hollendinga verði teknar til greina fyrir dómstólum að því er varðar lágmarksinnistæðutryggingu hvers innistæðueigenda, það er rúmlega 20 þúsund evrur. En þeir telja einnig mögulegt að sú niðurstaða fáist, að kröfur Breta og Hollendinga verði ekki teknar til greina.
„Af framangreindu leiðir, að kostirnir við að halda málaferlum til streitu eru helstir þeir, að við það fæst lögfræðileg úrlausn sem hugsanlega hefði þau áhrif að íslenska ríkið þyrfti ekki að greiða. Ókostirnir eru aftur á móti þeir, að málið gæti tapast sem myndi að öllum líkindum setja Ísland í verri samningsstöðu en nú er fyrir hendi og gæti leitt til óhagstæðari niðurstöðu. Hér verður einnig að gæta þess að dómsmál geta dregist á langinn með samsvarandi óvissu og tjóni fyrir alla aðila. Verður þá einnig að hafa í huga að þetta getur haft áhrif á vinsamleg samskipti við þjóðir sem hlut eiga að máli," segir í álitsgerðinni.
Fram kemur í greinargerðinni, að það sé grundvallaratriði í samkomulagi um Icesave, að neyðarlögin svonefndu, sem sett voru í október 2008, haldi því verði þeim hnekkt yrði eignum gamla Landsbankans ráðstafað upp í allar almennar kröfur á hendur gamla bankanum.
Lögfræðingarnir telja fremur litlar líkur á að neyðarlögunum verði hnekkt með dómi þótt það sé ekki útilokað. Þeir segja síðan í lok álitsins, að versta niðurstaðan af Icesave-samningnum sé sú, að hann geti leitt til mikilla skuldbindinga fyrir íslenska ríkið um mörg ókomin ár. Ólíklegt sé þó að til þess komi. Besta niðurstaðan sé sú, að ríkið þurfi aðeins að greiða óverulegar fjárhæðir eða alls ekki neitt.