Fréttaskýring: Verð ekki veigamesti þátturinn

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.

Við mat Ríkiskaupa, fyrir hönd Varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, á samningsaðilum vegna leigu á ljósleiðaraþræði vó örvun samkeppni mun þyngra en aðrir þættir sem horft var til, þar á meðal boðið leiguverð. Svo fór að Vodafone gekk frá samningi til tíu ára um leigu á þræðinum, en um er að ræða einn af átta þráðum í sama streng, sem liggur hringinn í kringum landið.

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær hefur fjarskiptafyrirtækið Míla, sem fer með yfirráð yfir fimm þráðum af átta í strengnum, kært leigusamninginn til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í kærunni er því haldið fram að leiguverðið sé langt undir eðlilegu markaðsverði og því sé um að ræða verulegan ríkisstyrk til handa fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Vodafone þurfi einungis að greiða hluta af rekstrarkostnaði og sé laust við kostnað af lagningu, endurnýjun og afskriftum.

„Þetta er hljóð úr horni einokunaraðila sem er að missa spón úr aski sínum,“ segir Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone. Hann segir tilkomu þráðarins gera Vodafone sjálfstæðara í sínum rekstri, þó fyrirtækið eigi áfram í viðskiptum við Mílu á öðrum sviðum. Vodafone hafi raunar verið einn stærsti einstaki viðskiptavinur Mílu. „Nú getum við boðið fyrirtækjum og stofnunum þjónustu í samkeppni við Mílu,“ segir hann. Míla sé þannig bæði að missa einn stærsta viðskiptavin sinn og þurfi að takast á við aukna samkeppni á markaðnum.

Hrannar segir ýmislegt villandi í málflutningi Mílu. Fyrir það fyrsta sé leiguupphæðin gengistryggð. Hún sé 25 milljónir á þessu ári, en ekki 19 milljónir eins og haldið hafi verið fram. Hann segir jafnframt að ekkert sé óeðlilegt við það að Vodafone greiði einungis hluta rekstrarkostnaðar strengsins. „Við teljum það þvert á móti fullkomlega eðlilegt, af því við erum að leigja hluta af strengnum, en ekki allan strenginn. Þá borgum við hluta af rekstrarkostnaðinum,“ segir Hrannar. Hann segir fyrirtækið hafa þurft að leggja út á annað hundrað milljónir í kostnað vegna kaupa og uppsetningar á búnaði til þess að taka þráðinn í notkun. „Þannig að kostnaður okkar af þessu er auðvitað miklu meiri en sá sem fer í leigu á þræðinum.“

Ráðuneyti leigusalinn

Þráðurinn sem Vodafone leigir nú er leigður af utanríkisráðuneytinu, sem tók yfir hluta af starfsemi Varnarmálastofnunar frá áramótum. Þegar stjórnvöld tóku rekstur Ratsjárstofnunar yfir árið 2007 fylgdu þrír ljósleiðaraþræðir NATO með.

Þræðirnir fluttust síðan til Varnarmálastofnunar en rekstur þeirra heyrir nú undir ráðuneytið. Ekki liggur fyrir hvernig rekstrarfyrirkomulagi þeirra verður háttað til langframa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert