100 krónur dugðu ekki

„Til 14. janúar næstkomandi biðjum við ykkur að sýna sveigjanleika varðandi staðgreiðslugjald ungmenna.“ Svo segir í bréfi sem var sent úr þjónustuveri Strætó bs. til allra vagnstjóra 3. janúar síðastliðinn.

Mbl.is, greindi frá því í gær að níu ára gömlum dreng hefði verið vísað út úr strætó á Hverfisgötunni á fimmtudagsmorguninn vegna þess að hann var aðeins með 100 krónur á sér, en fargjöld fyrir börn hækkuðu nýlega úr 100 kr. í 350 kr.

Samkvæmt ofangreindu bréfi rann sveigjanleikinn út í gær, föstudag, og var því drengurinn innan aðlögunartímans með sinn hundraðkall. Jafnframt segir í bréfinu til vagnstjóranna að fram til 14. janúar eigi þeir að lofa ungmennum að greiða með 100 kr. og afhenda þeim miða um leið þar sem gjaldskrárbreytingin er kynnt fyrir foreldrum og forráðamönnum þeirra. Litið sé á þetta sem ákveðinn aðlögunartíma.

Átti að sýna sveigjanleika

„Við vitum ekki hvað gerðist í þessu tiltekna máli. Það kannast enginn vagnstjóri af þeim sem voru á vakt á þessum tíma við að hafa lent í þessu en hafi þetta gerst hefði hann átt að sýna sveigjanleika. Það var talað um að aðlögun væri fram undir miðjan mánuðinn,“ segir Reynir.

„Vagnstjórarnir verða að meta hversu sveigjanlegir þeir vilja vera og meta aðstæður. Vagnstjórar fengu miða sem þeir eiga að afhenda börnunum þegar þau koma með hundraðkallinn og skólarnir eru búnir að vera í gangi í svolítinn tíma og þar hafa plaköt um hækkuð fargjöld hangið uppi svo flestir ættu að vera meðvitaðir um hækkunina. Vagnstjórum hefur verið uppálagt að sýna sveigjanleika og kannski í ljósi þessa kjósum við að framlengja það eitthvað en það verður þá sent út eftir helgina.“

Reynir segir að þeir séu búnir að rannsaka þetta tiltekna mál sem kom upp á fimmtudaginn og ekkert hafi komi upp á yfirborðið um að þetta hafi verið einlægur ásetningur vagnstjóra. „Það er búið hafa samband við foreldra drengsins og bæta úr þessu máli og það eru allir sáttir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka