Aðgerðir vegna yfirveðsetninga

Lánveitendur íbúðalána hafa nú gert samkomulag vegna yfirveðsetts íbúðarhúsnæðis.
Lánveitendur íbúðalána hafa nú gert samkomulag vegna yfirveðsetts íbúðarhúsnæðis. mbl.is/Rax

Lánveitendur á íbúðalánamarkaði undirrituðu í dag samkomulag um nánari útfærslu aðgerða í þágu yfirveðsettra heimila. Samkomulagið er í samræmi við 1. tölulið viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og lánveitenda, frá 3. desember sl.

Lánveitendur sem undirrituðu samkomulagið í dag voru Arionbanki, Íslandsbanki, Landsbanki, Byr, SpKef, MP banki, Landssamtök lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóður. Samkvæmt upplýsingum frá efnahagsráðuneytinu er ekki útséð um að fleiri undirriti samkomulagið. 

Í frétt efnahagsráðuneytisins segir:

„Helstu efnisatriði samkomulagsins eru þessi:

1. Heimilum þar sem áhvílandi veðskuldir eru umfram 110% af verðmæti fasteignar, býðst að færa veðskuldir sínar niður að 110% af verðmæti eigna. Það er skilyrði niðurfellingar skulda að umsækjandi og/eða maki hans, eftir því sem við á, séu eigendur hinna veðsettu eigna og greiðendur áhvílandi lána og að eignin sé notuð til heimilishalds umsækjanda.

2. Sett er upp einfaldari leið fyrir lántaka sem óska eftir niðurfellingu um allt að 4 m.kr. fyrir einstaklinga og 7 m.kr. fyrir einstæða foreldra, sambýlisfólk og hjón. Tekið verður tillit til annarra aðfararhæfra eigna. Ef veðrými er á þeim eignum, lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Hjá lífeyrissjóðum mun lækkun skulda einnig takmarkast við að greiðslubyrði umsækjanda af lánum sem samkomulag þetta tekur til verði ekki lægri en sem svarar 18% af brúttótekjum eftir beitingu úrræðisins.

3. Lántakar sem eru með veðsetningu umfram 110% af verðmæti fasteignar, þrátt fyrir lækkun veðskulda um 4 eða 7 m. kr., geta óskað eftir frekari niðurfellingu. Niðurfellingin getur í heild numið allt að 15 m.kr. fyrir einstaklinga og 30 m.kr. fyrir einstæða foreldra, sambýlisfólk og hjón. Mörk niðurfellingar ráðast af 110% veðsetningarhlutfalli af verðmæti eigna og að greiðslubyrði umsækjanda af lánum, sem samkomulagið tekur til, fari ekki niðurfyrir 18% af brúttótekjum.

4. Skuldir sem færa má niður samkvæmt samkomulaginu eru skuldir sem stofnað var til vegna fasteignakaupa umsækjanda á árunum fyrir 2009 og hvíla með veði á eign sem er til heimilishalds lántaka og uppfylla rétt til vaxtabóta. Þó eru undanskilin lán sem veitt voru til endurbóta af Íbúðalánasjóði og voru yfir fasteignamati hinnar veðsettu eignar við lánveitingu.

5. Þegar um gengistryggð lán er að ræða er miðað við höfuðstól þeirra að loknum endurútreikningi samkvæmt ákvæðum nýsettra laga nr. 151/2010 um endurreikning gengistryggðra lána og mat á skuldastöðu miðað við þannig endurreiknaðar eftirstöðvar þeirra lána.

6. Þeir lántakar, sem hafa þegar fengið niðurfellingu skulda sinna niður í 110% af verðmæti eigna sinna á grundvelli annarra úrræða, geta átt þess kost að fá frekari niðurfellingu að uppfylltum skilyrðum þessa samkomulags.

7. Lántaki skal snúa sér til þess lánveitanda íbúðaláns sem er á aftasta veðrétti. Sá lánveitandi, sem lántaki leitar til, heldur utan um málið gagnvart öðrum lánveitendum.

8. Unnt er að sækja um niðurfellingu skulda samkvæmt samkomulaginu fram til 1. júlí 2011.

9. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Samkomulagið kemur ekki í veg fyrir að lánveitendur veiti viðskiptavinum sínum frekari greiðsluerfiðleikaúrræði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert