Minnkandi sala á áfengi á síðasta ári hefur haft áhrif á áætlanir ríkissjóðs um tekjur af áfengisgjaldi á þessu ári. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2011 var reiknað með tekjum upp á 11,2 milljarða króna en í samþykktum fjárlögum var talan komin niður í 10,8 milljarða króna. Lækkunin nemur 400 milljónum króna.
Áætlun um tóbaksgjaldið lækkaði einnig, úr 5,3 milljörðum í fjárlagafrumvarpinu niður í 4,9 milljarða í sjálfum fjárlögunum. Er þá búið að gera ráð fyrir 10% hækkun sem varð á áfengis- og tóbaksgjaldi um áramótin, sem og hækkun virðisaukaskatts upp á 1%.
Þá er í fjárlögunum búist við að ÁTVR skili hagnaði á þessu ári upp á 852 milljónir króna en að arðgreiðslur til ríkissjóðs muni nema um einum milljarði króna.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu dróst sala á áfengi saman um 5,1% á síðasta ári, miðað við árið þar áður. Munaði þar mest um 34% samdrátt á sölu sterkra drykkja. Sala á sígarettum dróst saman um 11,5% milli ára.
Í lok nóvember 2010 höfðu tæpir 9,2 milljarðar króna verið innheimtir af áfengisgjaldinu og er það lítilsháttar lægri fjárhæð en áætlun gerði ráð fyrir, sem var ríflega 9,2 milljarðar fyrir fyrstu ellefu mánuði ársins. Munar þar 79 milljónum króna og samkvæmt því telur Fjársýsla ríkisins að áfengisgjaldið verði nokkurn veginn á áætlun ársins 2010, sem var upp á tæpa 10,2 milljarða króna. Í fjárlögum fyrir það ár var reiknað með tekjum af áfengisgjaldi upp á tæpa 10,3 milljarða. Samkvæmt reikningi ríkissjóðs fyrir árið 2009 skilaði gjaldið 9,7 milljörðum króna í kassann.
ÁTVR kaupir vörur með áfengisgjaldi af innflytjendum á áfengi. Út frá seldu magni á síðasta ári var áfengisgjaldið um 8,3 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR. Gróflega má gera ráð fyrir að hlutur ÁTVR í tekjum ríkissjóðs af áfengisgjöldum sé 78-80% og afgangurinn komi af sölu áfengis á veitingahúsum. Samkvæmt þessum tölum ætti áætlun síðasta árs að vera nokkuð nærri lagi, sem fyrr segir.