Báðu um milljarð dala í lán

Reuters

Íslendingar báðu Bandaríkjamenn um einn milljarð Bandaríkjadollara að láni síðla árs 2008. Þetta kemur fram á fréttavefnum CTV News. Þar segir að þessar upplýsingar komi fram í WikiLeaks skjölum sem nýlega voru gerð opinber.

Í fréttinni er vitnað í bréf Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra til Timothy Geithner, sem þá var forseti Seðlabankans í New York, sem dagsett er í október.

Þar er útskýrt hvernig Islendingar hafi brugðist við ástandinu fram að þessu og beðið um skjóta og jákvæða afgreiðslu á beiðni um eins milljarðs dollara lán.

Ennfremur er þess getið að verið sé að leita annarra möguleika í lánveitingum.

Í fréttinni segir að sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi hafi haft áhyggjur af mögulegri lánveitingu Rússa til Íslendinga, það gæti veitt Rússum yfirráðarétt yfir orkuauðlindum. Fréttastofa ABC í Bandaríkjunum segir að sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík hafi hvatt stjórnvöld í Washington til að styðja lánveitinguna.

Vitnað er í skeyti Carol van Voorst, þáverandi sendiherra,  sem óskaði eftir því að beiðni Íslendinga verði „skoðuð vandlega. Við eigum langtíma hagsmuna að gæta í Norður-Atlantshafi sem neikvæð viðbrögð gætu stefnt í hættu.“ 

Þá bætti van Voorst því við að það gæti reynst mikilvægara, en sýndist í fljótu bragði, að Íslendingar hugsuðu til Bandaríkjamanna sem vinar af því tagi sem stæði með þeim í blíðu og stríðu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert