Þrjár vínflöskur, sem kostuðu samtals á níunda hundrað þúsund krónur, seldust í Fríhöfninni í Leifsstöð í vikunni. Um var að ræða tvær skoskar Macallan maltviskí og eina koníaksflösku. Fréttavefurinn Víkurfréttir greinir frá þessum dýrmætu dropum sem útgerðarmaður einn keypti á einu bretti.
„Elsta flaskan var frá árinu 1996 og var þá 50 ára afmælisútgáfa frá þessum þekkta maltviskí framleiðanda. Var því orðin 65 ára gömul. Hún seldist á rétt tæpar 400 þús. kr. Önnur flaska af Macallan gerð seldist á um 300 þús. kr. og svo fór koníaksflaskan á um 100 þús. kr. Flöskur af þessari gerð fara á stórar upphæðir í útlöndum og eru gjarnan seldar á uppboðum, m.a. hjá Sothebys,“ segir í frétt Víkurfrétta.
Flöskurnar dýru höfðu verið til sölu í Fríhöfninni í 15 ár en ekki selst fyrr en nú. Þótt sumum kunni að vaxa þessar tölur í augum þá má geta þess að flaska af 50 ára gömlu Macallan viskíi seldist á uppboði hjá McTear's uppboðshúsinu í Glasgow fyrir 11.750 sterlingspund eða tæplega 2,2 milljónir króna. Það er hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir flösku af brenndu áfengi í þessum flokki, að sögn vefjarins Luxury Launches.