Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, er m.a. gefið að sök að borið ábyrgð á því að búlgarskur viðskiptafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar fékk 4,5 milljarða yfirdráttarlán viku fyrir bankahrun. Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá þessu í kvöld.
Sigurjón mun vera sakaður um fjársvik, umboðssvik, skilasvik og markaðsmisnotkun. Stöð 2 hefur undir höndum gæsluvarðhaldskröfuna sem lögð var fram áður en Sigurjón var hnepptur í gæsluvarðhald á föstudaginn var.
Samkvæmt henni mun leika grunur á að viðhöfð hafi verið skipulögð og kerfisbundin markaðsmisnotkun á árunum 2003-2008. Með henni hafi verið ætlunin að skekkja verðmyndun á hlutafbréfum Landsbankans.
Þá beinist rannsóknin að lánum til fjögurra félaga sem notuð voru til hlutabréfakaupa í bankanum. Sérstakur saksóknari mun m.a. vera að rannsaka hvort innri reglur Landsbankans hafi verið brotnar við þessar lánveitingar.
Einnig er rannsakað yfirdráttarlán til búlgarska félagsins Pro-Invest í eigu Georg Tsvetanski kaupsýslumanns. Hann fékk 4,5 milljarða yfirdráttarlán hjá Landsbankanum í Lúxemborg 30. september 2008, það er daginn eftir tilkynninguna um þjóðnýtingu Glitnis.
Lán þetta var notað til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum. Lánveitingin er talin falla undir umboðssvik, að sögn fréttastofu Stöðvar 2.