Rannsókn Freydísar Vigfúsdóttur, líffræðings og doktorsnema, sýnir að um 90% af kríuungum í stóru kríuvörpunum á Snæfellsnesi sem reiða sig algjörlega á sandsíli komast aldrei á legg heldur drepast í hreiðrinu.
Í umfjöllun um rannsóknina í Morgunblaðinu í dag vill Freydís að Íslendingar hætti að taka egg frá kríu, veiða lunda og annan svartfugl.
„Grænland er eini staðurinn sem er með sambærileg kríuvörp og á Íslandi og rannsóknir þar hafa leitt í ljós að eggjataka á varpstöðum hefur lagt mjög mikið til stofnhrunsins sem þar hefur átt sér stað. Mættum við Íslendingar alveg hugsa um það þegar við erum að japla á kríueggjum,“ segir hún.
Um 20-30% af öllum kríum í heiminum verpa á Íslandi og um 70% af öllum álkum og Freydís segir að Íslendingar hafi ekki sinnt skyldu sinni við að vakta þessar tegundir.