Greiðsluaðlögun felld úr gildi vegna vanskila

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur að kröfu Íslandsbanka fellt úr gildi tímabundna greiðsluaðlögun, sem kona fékk í desember 2009 vegna fasteignaveðkrafna á íbúð sinni. Konan gekkst undir að greiða tiltekna upphæð mánaðarlega í 5 ár en lenti í vanskilum eftir að hún missti vinnuna. 

Bankinn höfðaði mál sl. haust til að fá greiðsluaðlögunina ógilta á þeirri forsendu, að konan hefði ekki staðið skil á umsömdum greiðslum.

Konan féllst ekki á að um væri að ræða veruleg vanskil. Þá taldi hún að horfa bæri til þess af hvaða ástæðum vanskilin stöfuðu.  Henni hefði verið sagt upp störfum lok nóvember 2009 með þriggja mánaða uppsagnarfresti og frá þeim tíma hefðu tekjur hennar verið hverfandi.

Konan vísaði einnig til þess, að hún ætti ágæta von um fjármuni þar sem hún hefði höfðað mál gegn fyrrum vinnuveitenda og fleirum til heimtu skaða- og miskabóta vegna uppsagnar hennar. Einnig sé í málinu gerð krafa um vangoldin laun.

Héraðsdómur sagði hins vegar algjörlega óvíst hver niðurstaða þess máls verði. Féllst dómurinn á að veruleg vanskil hefði orðið á samningnum og einnig var upplýst að konan stundar ekki launaða vinnu heldur þiggur námslán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert