Annríki hefur verið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi í dag vegna hálkuslysa, en víða á höfuðborgarsvæðinu er flughált.
Að sögn vaktstjóra á deildinni hefur verið fullt þar í allan dag, en vegna anna hafði ekki gefist tími til að taka saman fjöldann.
Biðstofan var full í allan dag og enn biðu margir á tíunda tímanum í kvöld.
Meiðsli fólks, sem dettur í hálku, geta verið af margvíslegum toga, en brot á úlnlið eru einna algengust vegna þess að fólk ber höndina gjarnan fyrir sig er það dettur og getur þá lent illa á úlnliðnum.
Að sögn vaktstjórans leitar fólk á öllum aldri á deildina vegna hálkuslysa.