Fjölgað hefur í hópi mótmælenda á Austurvelli, og eru þeir sem berja á tunnur og búsáhöld fyrir utan Alþingi nú á þriðja hundrað talsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að þrátt fyrir aukinn fjölda hafi allt farið vel fram.
Um klukkan fjögur voru mótmælendur á Austurvelli tæplega 30 talsins, en þeim fjölgaði talsvert á fimmta tímanum. Segir lögregla að þeim hafi heldur lítið fjölgað síðasta hálftímann.
Lögreglan girti þinghúsið af fyrr í dag. Var það gert til að tryggja öryggi almennings og vinnufrið lögreglu, sem er á vettvangi.
Fyrsti þingfundur ársins hófst kl. 15 í dag.