Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ekki væri boðlegt að blanda saman og setja fram sem úrslitaatriði í kjarasamningum að lausn náist í viðræðum um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það væri algerlega ófært og ólíðandi að tengja þessi mál saman.
Jóhanna var að svara fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Bjarni sagði, að það væri veruleikafirring ef forsætisráðherra héldi, að aðilar vinnumarkaðar geti gert kjarasamninga ef ekki væri búið að eyða óvissu um fiskveiðistjórnunarkerfið.