Landhelgisgæslan vekur athygli á óvenju hárri sjávarstöðu dagana eftir fullt tungl í janúar, febrúar og mars 2011. Flóðspá fyrir Reykjavík gerir ráð fyrir óvenju hárri sjávarstöðu á fullu tungli í janúar, febrúar og mars.
Ástæða er til að fylgjast vel með veðurspá og loftþrýstingi þessa daga og jafnframt dagana fyrir og eftir fullt tungl, segir á vef Gæslunnar.
Þar segir ennfremur að ástæða óvenju hárrar sjávarstöðu nú sé að tunglið verði eins nálægt jörðu og það geti orðið þann 19 mars. Þá verði það í um 357.000 km fjarlægð frá jörðu. Tunglið sé að meðaltali um 384.400 km frá jörðu en mest geti fjarlægðin verið um 407 þúsund km. Breytileg fjarlægð tungls frá jörðu hafi áhrif á sjávarhæð.