Skýrslutökur halda áfram

Skýrslutökur hjá embætti sérstaks saksóknara hafa staðið yfir í allan dag. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir rannsókn embættisins á meintri markaðsmisnotkun Landsbankans miða ágætlega, en getur að öðru leyti ekki tjáð sig um málið í smáatriðum.

Hann segir í samtali við mbl.is að skýrslutökur muni halda eitthvað áfram í kvöld. Fimm til sjö teymi séu starfandi, þannig að hægt sé að yfirheyra allt að sjö í senn vegna málsins.

„Það er töluverð vinna við að fara í gegnum þetta. Og vegna þess hversu umfangsmikið þetta er þá taka yfirheyrslurnar yfir hverjum og einum yfirleitt nokkuð langan tíma,“ segir Ólafur.  Aðspurður segir hann rannsóknina mjakast áfram og sé eins og við hafi verið að búast. Við yfirheyrslur komi fram nýjar upplýsingar sem þurfi svo að rannsaka frekar.

„Þetta er upphafið að þó nokkuð löngu ferli. En þetta hefur gengið mjög vel.“

Fram kemur komið að Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefur verið úrskurðaður í farbann til 25. janúar vegna rannsóknarinnar. Jafnframt hefur komið fram að Sigurjón Þ. Árnason, sem er einnig fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 25. janúar.

Ólafur vill ekki gefa upp hversu marga einstaklinga embættið hafi þurft að kalla heim til yfirheyrslu, hvað varðar rannsóknina á málefnum Landsbankans sem og í öðrum málum, en hann segir að langflestir hafi hlýtt kallinu.

„Þetta fólk sem við köllum eftir, það skilar sér strax,“ segir hann. Fólk vilji síður lenda í því að Interpol lýsi eftir því.

Nú starfa rúmlega 60 manns hjá embættinu. Starfsmönnum mun fjölga um 12 í þessum mánuði og í þeim næsta að sögn Ólafs. Sjö bætast við í janúar og fimm í febrúar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert