Í óundirbúnum fyrirspurnarspurnatíma á Alþingi í dag varpaði Sigmundur Davíð Gunnlaugson, þingmaður Framsóknarflokksins fram fyrirspurn um afstöðu ríkisstjórnarinnar til undirskrifta um 50.000 manns, sem vilja að ríkið komi í veg fyrir sölu á HS-Orku til Magma Energy.
Í fyrirspurninni sagðist Sigmundur Davíð telja fremur ólíklegt að sölunni yrði rift og spurði hvort afstaða stjórnarinnar hefði breyst og hvort einhver leið væri til að vinda ofan af þessum samningi.
Ennfremur sagðist hann vilja fá að vita afstöðu forsætisráðherra til sölunnar á Vestia til Framtakssjóðs.
Í svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra kom fram að verið væri að finna leiðir til „að vinda ofan af þessu Magma dæmi“. Vissulega væru til leiðir til þess.
Hún sagðist hafa rætt við forsvarsmenn undirskriftasöfnunarinnar um þá kosti og galla sem í boði væru. Ef til eignarnáms kæmi, þá væri skynsamlegast að reyna fyrst samningaleiðina við forsvarsmenn Magma.
Jóhanna vísaði í ályktun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um að endurskoða samninginn við Magma og vísaði ennfremur í lagafrumvarp varðandi eignarhald á orkuauðlindum, sem verið er að vinna.
Hún sagði ýmsar leiðir koma til greina og vonaðist til að frumvarp um heildstæða orkustefnu yrði lagt fram á yfirstandandi þingi.
Sigmundur Davíð kom aftur í ræðustól og spurði hvort það væri rétt skilið hjá honum að ríkisstjórnin sé að fara út í eignarnám og að ógilda þá samninga sem þegar hafa verið gerðir.
Forsætisráðherra ítrekaði að engin ákvörðun hefði verið tekin í þessum efnum, hvorki hvað varðaði eignarnám eða ógildingu samninga. Einungis hefði verið að kynna þá möguleika sem væru í stöðunni.
Varðandi söluna á Vestia til Framtakssjóðs, væri mikilvægt að það ferli væri opið og gagnsætt.