Frábært skíðafæri og góð stemning var í Oddsskarði um helgina. Dagfinnur Smári Ómarsson, staðarhaldari í Oddsskarði, sagði að um þrjú hundruð gestir hefðu verið þar í gær.
Magnúsargilið var lokað vegna snjóflóðahættu úr Magnúsartindi og Oddsskarði en hætta skapaðist þegar tveir vélsleðamenn fóru inn á snjóflóðahættusvæðið.„Þeir fóru framhjá bannskiltunum og virtu ekki viðvaranir. Snjóflóðaeftirlitið sagði að ef ekki væri farið inn á svæðið væri þetta í lagi, flóðið færi ekki af stað af sjálfu sér. Vélsleðamennirnir ætluðu í aðrar brattari brekkur og ákváðu að kanna snjóflóðahættuna með því að fara þarna fyrir ofan byrjendasvæðið hjá okkur og skapa hættu fyrir sjálfa sig og aðra. Sem betur fer fór ekkert af stað en við hringdum í lögregluna og létum hana vita, hún talaði við þá og þeir voru ekki mjög sáttir við það,“ sagði Dagfinnur.