Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, telur að margir hafi áhuga á 300 tonna byggðakvóta Flateyrar. Hann sagði að vonir væru bundnar við að einhverjir byrjuðu þar atvinnurekstur frá grunni.
Einhverjir hafa þegar lýst áhuga á því og ráða sumir þeirra yfir einhverjum kvóta, að sögn Daníels. Hann sagði að unnið væri eftir þeirri áætlun nú en óvíst hve langan tíma tæki að hrinda henni af stað. Hann sagði að mikil framleiðslugeta væri fyrir hendi á Flateyri. Þá nefndi hann að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði ætlað að fjölga störfum í starfsstöð sinni á Flateyri og því þyrfti að hraða.
„Við eigum góða aðstöðu. Kannski opnar þetta önnur tækifæri. Um það þarf vinnan að snúast næstu daga,“ sagði Guðmundur Björgvinsson, formaður Íbúasamtaka Flateyrar. Hann sagði ástandið vissulega orðið lýjandi og þrautagönguna langa í tengslum við fiskvinnsluna og vonaði að hjólin færu að snúast.