Bjóði ríkinu auðlindirnar

Frá Reykjanesvirkjun.
Frá Reykjanesvirkjun. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjanesbæ gáfu út sameiginlega yfirlýsingu í bæjarstjórn í kvöld:

„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjanesbæ lýsa yfir vilja til að Reykjanesbær bjóði ríkinu að kaupa land og jarðauðlindir sem Reykjanesbær keypti af HS orku til að auðlindin yrði í samfélagslegri eigu. Þannig færist hún úr sveitarfélagseign og verði þjóðareign, segir í yfirlýsingunni.

Þá segir að svo virðist sem margir Íslendingar telji eignarhald íbúa sveitarfélaga á jarðauðlindinni og auðlindagjald sem sveitarfélag innheimtir fyrir afnot af henni, ekki hafa sama gildi og ef ríkið eigi hana. Hún verði aðeins „þjóðareign“ ef ríkið eigi hana.

„Með eignarhaldi ríkisins á auðlindinni sem HS orka nýtir, getur ríkið sjálft leitað samninga við HS orku m.a. um styttri nýtingartíma en nú gildir lögum samkvæmt og miðað var við í samningum Reykjanesbæjar við HS orku,“ segir þar ennfremur.

Bent er á að sett voru lög árið 2008 sem skiptu upp rekstri orkufyrirtækja í virkjanir og veitustarfsemi, heimila einkaaðilum að eiga meirihluta í virkjunum en opinberum aðilum beri að eiga meirihluta í veitufyrirtækjum.

„Þegar þessi lög fóru í gegn tryggði Reykjanesbær að jarðauðlindin sem HS orka nýtir í virkjun á Reykjanesi, færi í almannaeigu með því að bærinn keypti landið og auðlindirnar af HS orku. Sama gerði Grindavík gagnvart virkjun HS orku í Svartsengi. HS orka á því engar auðlindir sem fyrirtækið nýtir en byggir á nýtingarsamningum sem greitt er fyrir með auðlindagjaldi til sveitarfélaganna. Ríkinu býðst nú að eignast þessar auðlindir og samninga, í stað sveitarfélagsins,“ segir í yfirlýsingunni.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert