Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi forstjóri Landsbankans, einbeitir sér nú að því að upplýsa sérstakan saksóknara um þau atriði sem að sér snúa. Lögmaður hans segir stöðuna að því leyti óbreytta. Halldór verður í farbanni til 25. janúar.
„Staðan er alveg óbreytt,“ segir Friðjón Örn Friðjónsson, lögmaður Halldórs. „Hann er ennþá að gera grein fyrir sínu máli hjá embætti sérstaks saksóknara, og svara þeim spurningum sem til hans er beint eins og honum er unnt.“
Halldór var eins og áður segir úrskurðaður í farbann til 25. janúar næstkomandi. Fyrrverandi samstarfsmenn hans, þeir Sigurjón Árnason og Ívar Guðjónsson voru fyrir skömmu úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Báðir kærðu þeir úrskurðinn til Hæstaréttar, en Ívar var leystur úr haldi í gær. Halldór ákvað hins vegar að kæra ekki farbannsúrskurðinn.
Þau ólíku úrræði sem beitt var í tilfelli Sigurjóns og Halldórs, sem báðir voru bankastjórar, vekja upp spurningar um það hvort ekki sé litið svo á að þáttur þeirra í meintum brotum hafi verið jafn mikill. Friðjón segist hinsvegar ekki vilja „draga neinar ályktanir af ákvörðunum sérstaks saksóknara.“
„Ég hef ekki séð þau gögn sem hafa verið lögð fyrir Sigurjón, en geri ráð fyrir því að að meginstefnu til séu þetta sömu sakargiftir [og í tilfelli Halldórs],“ segir Friðjón. Málið sé á viðkvæmu stigi og hann geti ekki tjáð sig nánar um málsatriði.