Endurrit af dómþingi í New York, þegar dómari ákvað að vísa frá máli slitastjórnar Glitnis gegn sjö einstaklingum og PricewaterhouseCoopers, hefur nú verið birt á vef dómsins. Þar kemur fram, að dómarinn og lögmenn áttu í erfiðleikum með að henda reiður á íslenskum nöfnum fyrirtækja og einstaklinga.
Þegar Michael C. Miller, lögmaður slitastjórnarinnar, rakti málavöxtu fyrir Charles E. Ramos, dómara, þurfti dómarinn fljótlega að stöðva lögmanninn því hann átti í erfiðleikum með að greina á milli nafnanna (Jóns Ásgeirs) Jóhannessonar og (Þorsteins) Jónssonar.
„Það er ekki erfitt að rugla þessum nöfnum saman," sagði þá Stephen P. Younger, einn af lögmönnum sjömenninganna.
Þegar Younger síðan reifaði málið frá sjónarhóli sjömenninganna og þurfti að bera fram nöfn á borð við Tryggingamiðstöðina, Kjarrhólma og Oddaflug varð honum að orði: „Þér myndi þykja gaman að dæma í þessu máli. Það tæki marga klukkutíma að bera fram nöfnin." Hann sagðist þó auðveldlega geta borið fram nafnið 101 Capital.
Dómarinn lýsti fljótlega miklum efasemdum um að málið ætti heima fyrir rétti í New York. „Ég horfi á deilu milli tveggja íslenskra aðila sem flutt er í New Yor og ég spyr mig, ég er aðeins mannlegur, hvers vegna í ósköpunum eru þeir að ónáða mig með þessu máli? Hvaða máli skiptir það dómstóla og skattgreiðendur í New York, sem borga mér lúsarlaun, að ég eyði miklum tíma í þetta mál þegar ég á enn erfitt með að skilja hvers vegna niðurstaða þess skipti okkur nokkru máli?" segir dómarinn á einum stað. „Ég hef tilhneigingu til að senda ykkur til Íslands."
Dómarinn sagðist bera mikla virðingu fyrir öðrum þjóðum. „Ísland var land löngu á undan okkur. Nokkrir af þeim fyrstu mönnum, sem komu hingað, voru sennilega frá Íslandi. En ég tel að þetta mál sé ónauðsynleg byrði fyrir New York ríki," sagði Ramos.
Ein af málsástæðum slitastjórnarinnar fyrir að sækja málið í New York var að íslenskir dómstólar væru yfirfullir af málum í kjölfar bankahrunsins. Þessu gerðu lögmenn sjömenninganna lítið úr og sögðu að á fyrri hluta síðasta árs hefðu dómarar á Íslandi að meðaltali fengið innan við 13 ný mál hver. Ramos dómari sagðist hins vegar hafa 350 mál á sinni könnu.
Niðurstaða dómarans var að vísa málinu frá, svo framarlega sem sjömenningarnir og PricewaterhouseCoopers lýstu því yfir fyrir dómi að þau muni ekki mótmæla lögsögu íslensks dómstóls í málinu. Í öðru lagi þyrftu þau að lýsa því yfir að þau myndu ekki mótmæla því að dómur, sem félli á Íslandi, væri aðfararhæfur í New York. Fram kemur í málsskjölum, að ágreiningur er á milli slitastjórnarinnar og sjömenninganna um orðalag slíkrar yfirlýsingar og hefur ekki fengist niðurstaða um það enn.