Mótmælin í Alþingishúsinu skipulögð?

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ómar Óskarsson

Lára V. Júlíusdóttir, settur saksóknari í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem meðal annars eru ákærðir fyrir árás gegn Alþingi upplýsti um það við aðalmeðferðina að miðum hefði verið dreift tveimur dögum fyrir atvikin í Alþingishúsinu þar sem fólk var hvatt til að mótmæla þar.

Lára spurði einn sakborninga út í þessa mótmælaboðun en hann upplýsti um hana við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann neitaði hins vegar að svara spurningu saksóknarans, líkt og svo margir sakborningar um álíka atriði, þ.e. hvort að mótmælin í Alþingishúsinu hafi verið skipulögð. Þeir sem hins vegar hafa svarað þeim spurningum segjast ekki kannast við skipulagningu.

Skýrslutökur hafa gengið nokkuð hratt fyrir sig í morgun, ekki síst þar sem nokkrir sakborninga neita að svara spurningum ákæruvaldsins. Öll eru þau hins vegar á sama máli um að þau hafi verið í fullum rétti inni i Alþingishúsinu, enda hafi ekki verið nein skilti eða neitt sem benti til þess að þingpallar væru lokaðir þennan tiltekna dag, 8. desember 2008.

Engin sakborninga kannaðist við að beitt hefði verið ofbeldi í Alþingishúsinu, né að hafa fengið fyrirmæli frá þingvörðum þess efnis að ekki mætti fara upp á þingpalla. 

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert