Flateyringar kveiktu á neyðarblysum við höfnina í bænum í dag, en það var táknrænt ákall til yfirvalda um að þau ráðist sem fyrst að rótum vandans sem hrjáir mörg þorp á landsbyggðinni í dag.
Þetta kemur fram í frétt á vef Bæjarins besta, bb.is, í dag. Þar er haft eftir formanni Íbúasamtaka Önundarfjarðar, Guðmundi Björgvinssyni, að allar þær lokanir sem boðaðar hafa verið að undanförnu séu Flateyringum mikið reiðarslag.
Skömmu eftir að tíðindin af gjaldþroti Eyrarodda bárust, boðaði bæjarráð til skyndifundar með íbúasamtökunum. Guðmundur segir að bæjarráðsmenn hafi verið allir af vilja gerðir að finna lausn á vandanum. „Hér er þessi góða vinnsluaðstaða og við erum með þennan 300 tonna byggðakvóta svo vonandi opnar þetta ný tækifæri fyrir aðra vinnsluaðila,“ sagði Guðmundur í samtali við bb.is „Þetta snýst allt um þennan frumrétt að fá að sækja fisk í sjóinn. Við erum með þetta öfluga hús til að vinna hann og nú kemur í ljós hvernig fjármálastofanir bregðast við en þær virðast vera tilbúnar að afskrifa ansi mikið fyrir suma og aðra ekki.“