Nokkrar sjálfsafgreiðslustöðvar veita fjórtán króna afslátt af eldsneyti í dag og er algengt verð á bensínlítranum tæpar 200 krónur fyrir þá sem eru með afsláttarlykla fyrirtækjanna.
Margir hafa gripið tækifærið og dælt á bíla sína. Frá Atlantsolíu fengust þær upplýsingar að mikil örtröð hefði verið í allan dag á öllum bensínstöðvum fyrirtækisins, sem eru 17 talsins.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, sem rekur Orkuna, segir að salan í dag hafi verið gríðarlega mikil og biðraðir hafi verið á flestum stöðvum Orkunnar síðan á hádegi.
„Þetta hefur verið skemmtilegur dagur og brjálað að gera,“ sagði Sigurður K. Pálsson, markaðsstjóri ÓB í samtali við mbl.is. Hann sagði að biðraðir hefðu myndast á nokkrum bensínstöðvum ÓB og að margir hefðu notað tækifærið og fengið sér ÓB-lykla.