Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli, sem Rammi á Siglufirði höfðaði gegn íslenska ríkinu. Vildi Rammi að viðurkennt yrði með dómi, að Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegsráðherra, hefði verið óheimilt að gefa rækjuveiðar frjálsar á yfirstandandi fiskveiðiári.
Rammi vísaði m.a. til þess að fyrirtækið hefði fjárfest með umtalsverðum hætti í aflahlutdeild í úthafsrækju í þeirri trú að þær fjárfestingar myndu nýtast því að óbreyttum lögum. Aflahlutdeild fyrirtækisins hafi síðan verið gerð verðlaus á yfirstandandi fiskveiðiári með því að gefa veiðarnar frjálsar.
Með þessu hafi eignastaða Ramma verið rýrð verulega til lengri og skemmri tíma. Fari svo að úthafsrækjustofninn verði ofveiddur vegna hinna stjórnlausu veiða sé ljóst að Rammi verði fyrir varanlegu fjárhagslegu tjóni. Með stjórnlausum úthafsrækjuveiðum sé einnig brotið gegn markmiðum um sjálfbærar veiðar, sem leiði til þess að orðspor Íslands sem fiskveiðiþjóðar verði í hættu, sem komi með beinum hætti niður á hagsmunum Ramma.
Dómurinn, Sigríður Ingvarsdóttir, segir í niðurstöðu sinni, að kröfugerð Ramma fjalli ekki um rétt fyrirtækisins í ákveðnu tilviki heldur felist í henni krafa um að almennt verði viðurkennt að ráðherranum hafi verið óheimilt að ákveða ekki með reglugerð heildarafla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu.
Það sé meginregla, að dómstólar geti ekki kveðið upp dóma þar sem niðurstaðan verði
aðeins sú að eitthvað sé almennt ólögmætt. Því eigi sakarefnið ekki undir dómstóla og beri að vísa málinu frá dómi.