Segir Dag B. valda vonbrigðum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Gúndi

Á borgarstjórnarfundi  var tillögu Sjálfstæðismanna, um að borgarstjórnin leggist gegn veggjöldum vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar, Suðurlandsvegar og Vesturlandsvega, vísað til umhverfis- og samgönguráðs.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segist telja að með því sé meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins að reyna að dreifa málinu á dreif. Ljóst sé að umrætt veggjald muni fyrst og fremst leggjast á íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Kjartan segir að þrátt fyrir að um 63% landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu renni innan við 20% af framlögum til stofnkostnaðar þangað samkvæmt samgönguáætlun.

„Þrátt fyrir að langstærsti hluti af vegasköttum verði til á höfuðborgarsvæðinu, rennur stærstur hluti þess til verkefna úti á landi,“ segir Kjartan.

Hann segist telja að  forgangsröðun í vegamálum eigi aðallega að taka mið af umferðaröryggi. „Stjórnmálamenn eiga fyrst og fremst að styðja framkvæmdir, sem auka umferðaröryggi, óháð því hvar á landinu þær eiga sér stað. Væri slík forgangsröðun viðhöfð, væru framkvæmdir á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi mjög ofarlega á blaði en ekki frekari gangagröftur úti á landi,“ segir Kjartan.

Hann segir það hafa valdið vonbrigðum að Dagur B. Eggertsson, sem er formaður borgarráðs en jafnframt varaformaður Samfylkingarinnar, skuli ekki vilja styðja „þessa skýru tillögu um stórt hagsmunamál borgarbúa.“

„Greinilegt er að þar tekur hann hagsmuni ríkisstjórnarinnar fram yfir hagsmuni Reykvíkinga,“ segir Kjartan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert