Segja borgaryfirvöld ekki hafna veggjöldum

Borgarstjórnarfundur í Ráðhúsinu. Mynd úr safni.
Borgarstjórnarfundur í Ráðhúsinu. Mynd úr safni. mbl.is/Ernir

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins segir að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hafi ekki treyst sér til að mótmæla fyrirhuguðum vegtollum á höfuðborgarsvæðinu á fundi borgarstjórnar í dag.  

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram tillögu þess efnis og viljað að borgarstjórn myndi senda ríkisstjórninni og Alþingi skýr skilaboð um að slík tvöföld skattheimta sé ekki sanngjörn gagnvart borgarbúum, en meirihlutinn hafi kosið að vísa tillögunni óafgreiddri til skoðunar hjá umhverfis- og samgönguráði. Þetta segir í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um ályktun borgarstjórnar vegna veggjalda er svohljóðandi:

„Borgarstjórn skorar á ríkisstjórn og Alþingi að láta ekki verða af hugmyndum um að leggja á veggjald til viðbótar við þá skatta og gjöld sem íbúar greiða nú þegar. Borgarstjórn er ekki andsnúin því að veggjöld séu skoðuð sem fjármögnunarleið vegna samgöngumannvirkja, (t.d. í sérstökum tilvikum þegar íbúar hafa val um aðra akstursleið) en telur rangt að innheimta þann kostnað tvöfalt með hækkun skatta og sérstöku veggjaldi.

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn sagði í ræðu sinni nauðsynlegt að borgarstjórn bregðist við þeirri umræðu sem undanfarið hefur verið um sérstök veggjöld til viðbótar stöðugt hækkandi sköttum og gjöldum.  Hún benti á höfuðborgarsvæðið hefði alltof lengi setið eftir við úthlutun fjármagns vegna samgöngubóta og að í vegaáætlun sem nær til ársins 2012 væri hlutfall höfuðborgarsvæðisins í þeirri úthlutun margfalt lægri en það sem eðlilegt gæti talist, þrátt fyrir að um 63% íbúa séu búsettir á þessu svæði. 

Hanna Birna benti á að það væri óásættanlegt að íbúar þurfi að greiða vegatolla til viðbótar við þau gjöld sem núþegar eru innheimt með bifreiðar- og bensíngjöldum.  ,,Það gengur einfaldlega ekki að ríkisvaldið komist upp með það að margskattleggja almenning í þessu landi, fyrst með því að hækka alla skatta og öll gjöld en síðan með því að bæta sérstöku veggjaldi ofaná.  Vilji menn skoða það að fjármagna samgöngubætur með sérstöku veggjaldi verður það að gerast þannig að aðrir skattar lækki á móti.  Núverandi ríkisstjórn virðist nú varla líkleg til þess.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert