Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir úr því að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi áhuga á stytta leigutíma HS orku á auðlindum og vilji hugsanlega taka fyrirtækið eignarnámi, væri eðlilegast að ríkið keypti auðlindina af Reykjanesbæ og semdi síðan beint við HS orku.
Árni segir að svo virðist sem það hafi að stórum hluta gleymst í umræðunni um HS orku og Magma að bæjarfélagið fái ríkulegt auðlindagjald að þeim auðlindum sem Magma fékk yfirráð yfir til 65 ára með möguleika á framlengingu um 65 ár, þegar félagið keypti HS orku. Þá skapi orkan mörg hundruð vel launuð störf hérlendis.
Í sameiginlegri yfirlýsingu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í dag að bjóða ríkinu að kaupa land og auðlindir sem HS orka nýtir til orkuframleiðslu.
Reykjanesbær fær nú 40 milljónir í leigutekjur af ári vegna orkunnar sem beisluð er í Reykjanesvirkjun og fær 70 milljónir verði að fyrirhugaðri stækkun, að sögn Árna.
Gagnrýni á að Magma ráði nú yfir HS orku hefur ekki síst beinst að því að nú mun erlent fyrirtæki ráða yfir orkuauðlindum á Reykjanesi til næstu 65 ára og getur framlengt til 65 ára í viðbót. Arðurinn renni því úr landi.
Í samtali við mbl.is sagði Árni að úr því að forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu áhuga á stytta leigutímann og hefðu lýst því yfir að hugsanlega yrði HS orka tekin eignarnámi, væri eðlilegast að ríkið keypti auðlindina af Reykjanesbæ og semdi síðan beint við HS orku, í stað þess að notast hugsanlega við valdboð.
HS orka á tvær virkjanir; í Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Reykjanesbær fær auðlindagjald vegna Reykjanesvirkjunar. „Reykjanesvirkjun framleiðir 100 MW. Hún selur þessa orku til álvers á Grundartanga. Þar starfa á annað þúsund Íslendingar. Hvernig er hægt að fullyrða að arðurinn fari úr landi. Sveitarfélagið fær auðlindagjald og hins vegar er verið að nýta orkuna í þágu íslenskra starfsmanna sem hafa laun vel yfir meðallaunum. Hvort eigandi virkjunarinnar hafi arð af virkjuninni, það er sjálfsagt mál. Annars myndi hann ekki leggja í þá áhættu sem virkjunin er,“ sagði Árni.
Koma yrði í ljós hvort ríkinu finnist þetta áhugaverður kostur. „Auðlindin er ekki gjöf. Við keyptum hana og höfum byggt upp hugmyndafræði í kringum auðlindagjaldið. Fyrir hana verður að koma verð sem við getum nýtt til að lækka okkar skuldir. Við verðum áfram með skipulagsvaldið á þessu svæði og höfum því ekki áhyggjur af því að afsala okkur einhverju sem hefur áhrif á hagsmuni samfélagsins,“ sagði hann.
Árni benti ennfremur á að Magma hefði aldrei átt auðlindina undir virkjunum HS orku. Auðlindin hefði verið farin úr eignasafni HS orku þegar Magma keypti hlut sinn í HS orku. Þegar uppskiptingin varð á virkjanahluta og dreifingarhluta árið 2008, að tillögu Samfylkingarinnar í þáverandi ríkisstjórn, hefði Reykjanesbær lagt áherslu á að kaupa alla auðlindina af HS orku, þ.e. virkjanahlutanum, áður en bærinn seldi sinn hlut í fyrirtækinu til Geysis Green Energy.
Reykjanesbær hefði með þessu eignast land og auðlindir undir virkjun á Reykjanesi og Grindavík eignast land og auðlindir undir virkjun í Svartsengi. Reykjanesbær hefði líka keypt líka meirihluta í dreifingarfyrirtækinu HS veitum og eigi nú 67% í því fyrirtæki. Síðan seldu GGE og Orkuveitan eignarhluti sína í HS orku til Magma, en þá hefði auðlindin einmitt þegar verið komin í eigu Reykjanesbæjar.