Óvenjumikið álag hefur verið á Landspítalanum að undanförnu vegna mikilla veikinda fólks. Hvert tiltækt sjúkrarými og skúmaskot hefur verið nýtt og sjúklingar orðið að liggja á göngum spítalans í einhverjum tilvikum. Hefur spítalinn einnig þurft að leita á náðir sjúkrahótels RKÍ til að koma sjúklingum fyrir.
Verst var þetta í síðustu viku þegar um 730 sjúklingar lágu inni en venjulega hefur Landaspítalinn yfir að ráða um 650 rúmum. Eitthvað færri lágu inni í gær en álagið engu að síður áfram mikið á starfsfólk spítalans.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, segir ástandið hafa verið óvenjulegt að því leyti að árstíðabundnar umgangspestir hafi verið að herja á fólk á sama tíma. Um er að ræða þrjár gerðir af inflúensu og til viðbótar svonefnda noro-veiki; skæða víruspest með niðurgangi og magakvillum, sem einnig getur lýst sér eins og flensuslappleiki. Tvær gerðir inflúensunnar eru af A-stofni; svínaflensan og árleg inflúensa, og ein af B-stofni sem kemur alltaf upp annað slagið.
„Við teljum þetta vera helstu skýringuna á meiri veikindum í samfélaginu en oft áður á þessum árstíma,“ segir Ólafur.
Þessir sjúkdómar hafa verið að herja á fólk á öllum aldri en þeir sem hafa aðra sjúkdóma fyrir hafa verið viðkvæmari fyrir veirupestum, einkum eldra fólk.
„Hjá okkur hafa legið talsvert fleiri en við höfum legurúm fyrir. Það hefur hjálpað okkur að geta breytt dagdeildum tímabundið yfir í legudeildir. Þessi sveigjanleiki hefur komið sér vel til að bregðast við auknu álagi,“ segir Ólafur og bætir því við að starfsfólk spítalans hafi staðið vaktina með miklum sóma.
„Við þekkjum svona toppa á þessum árstíma, janúar og febrúar hafa alltaf verið okkur erfiðir en noro-veiran hefur verið að valda okkur óvenjumiklum vandræðum. Þetta er mjög skæð pest og virðist vera dreifð um allt samfélagið. Við fáum fólk til okkar á hverjum degi út af þessu og svo er það að smitast inni á spítalanum,“ segir Hildur en eins og kemur fram hér til hliðar hefur þurft að loka deildum vegna noro-veirunnar.
Þannig hefur ein deild á Landakoti verið lokuð í einar þrjár vikur. Þá hefur spítalinn þurft að bregðast við lokun deilda á öðrum sjúkrastofnunun, eins og á Suðurnesjum, annaðhvort með því að taka við sjúklingum annars staðar frá eða að ekki hefur verið hægt að útskrifa sjúklinga annað vegna lokana, t.d. á hjúkrunarheimilum. Hefur þetta ástand þrengt að möguleikum Landspítalans á að koma sjúklingum fyrir, á sama tíma og sjúkrarýmum hefur fækkað vegna niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni. Ekkert hefur mátt út af bregða.
„Við höfum þurft að nota öll skot sem við finnum á spítalanum. Einnig höfum við haft greiðan aðgang að sjúkrahótelinu og allir sem geta eru sendir þangað. Ef loka þarf fleiri deildum gæti málið farið að flækjast fyrir okkur enn frekar,“ segir Hildur innlagnastjóri.
„Þess vegna er afar brýnt að fólk sem hefur flensueinkenni úti í þjóðfélaginu, hvort sem það er kvef, hiti eða niðurgangur, takmarki heimsóknir sínar til sjúklinga eins mikið og mögulegt er. Miðað er við að fólk þurfi að vera einkennalaust í 48 tíma áður en það fer af stað,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, við Morgunblaðið.