Þjóðin ráði lyktum ESB-máls

Þingmenn VG á fundi.
Þingmenn VG á fundi. mbl.is/Kristinn

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar þingsins, sagði á Alþingi í dag að hann væri enn þeirrar skoðunar, að ljúka eigi viðræðuferlinu við Evrópusambandið, niðurstaðan verði borin undir þjóðina og hún ráði lyktum þess. Árni sagði að vissulega væru skiptar skoðanir um þetta innan VG. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks,  sagði að haft hefði verið eftir Árna Þór í fjölmiðlum í síðustu viku, að sú staða kynni að koma upp í viðræðunum við Evrópusambandið, að viðræðunum yrði slitið vegna krafna ESB um aðlögun Íslands að sambandinu eða lagabreytingar.

Bjarni sagði, að lagt hefði verið upp með það af hálfu þingmanna Vinstri grænna, þegar þingsályktunartillaga kom fram um aðildarviðræður sumarið 2009, að samningaviðræðurnar yrðu leiddar til lykta en þeir áskildu sér rétt til að leggjast gegn samningsniðurstöðunni.

Bjarni sagðist hafa mótmælt þessari nálgun því ekki væri hægt að ætlast til að utanríkisráðherra skrifaði undir aðildarsamninga við ESB án þess að fyrir lægi meirihlutastuðningur á Alþingi.

„Ég tel, að einstakir ráðherrar geti ekki stutt lok viðræðna um einstaka kafla í aðildarferlinu án þess að þeir séu sammála því sem þar er lagt fram. Þess vegna skil ég þá afstöðu formanns utanríkismálanefndar, að það aðstæður kynnu að skapast að það þyrfti að slíta viðræðum," sagði Bjarni og spurði Árna Þór hvort Vinstri grænir ætluðu þá ekki að styðja aðildarsamninginn, ef viðræðunum lyki.

Árni Þór sagði, að aðildarviðræðurnar byggðust á samþykkt Alþingis og því hefði verið lýst mjög nákvæmlega í áliti utanríkismálanefndar hvernig þær viðræður myndu að fara fram.

„Ég er þeirrar skoðunar að viðræðurnar séu í öllum meginatriðum í samræmi við það sem lagt vara upp með í því nefndaráliti," sagði Árni Þór. 

Þá sagði hann, að ekkert væri nýtt í því sem haft var eftir honum í Fréttablaðinu í síðustu viku um hugsanleg viðræðuslit. Nákvæmlega sömu sjónarmið hefðu komið upp í framsöguræðu hans 16. júlí, 2009 þegar hann mælti fyrir meirihlutaáliti utanríkismálanefndar og formaður VG hefði lýst sömu sjónarmiðum þegar hann gerði grein fyrir fyrirvörum flokksins við aðildarferlið.

Bjarni ítrekaði þá skoðun, að ekki sé hægt að leiða aðildarsamninga til lykta nema fyrir liggi að meirihluti Alþingis og meirihluti ríkisstjórnarinnar styðji þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert