Tveir þingverðir og yfirmaður þeirra hafa gefið skýrslu við aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins á hendur níu einstaklingum sem m.a. gefið að sök árás á Alþingi 8. desember 2008. Í skýrslum þeirra kom fram að þeir töldu allir öryggi Alþingis ógnað þegar fólkið mætti í Alþingishúsið.
Þingverðirnir tveir, karlmaður og kona, sögðust bæði hafa slasast í átökum við mótmælendur þennan tiltekna dag. Yfirmaður þeirra sagði ástand á þingvörðum eftir daginn hafa verið slæmt.
Yfirmaðurinn gaf lögreglu boð um að mæta í Alþingishúsið með því að þrýsta á sérstakan árásarhnapp. Hann hafi í kjölfarið hringt í lögreglu og tjáð henni að verið væri „að ráðast á okkur“ og ekki væri um fölsk boð að ræða. Hann sagði boðin hefðu verið send út þegar hann sá í öryggismyndavélum að verið væri að ráðast á þingvörð, og fleira fólk væri á leiðinni að húsinu.
Einnig hafi þingvörðum verið tilkynnt um árás í talstöðum og fóru báðir þingverðir sem gáfu skýrslu á vettvang. Sögðust báðir hafa reynt að stöðva fólk í að fara upp á þingpalla. Fyrirmæli þeirra hafi hins vegar verið virt að vettugi. Annar þingvörðurinn sagði reyndar að fyrirmæli sín hafi ekki verið munnleg.