Dómstóll í Norfolk í Virginíu í Bandaríkjunum dæmdi í gær fyrrverandi bandarískan hermann í 80 ára fangelsi fyrir að framleiða barnaklám. Hann var einnig dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni þegar hann gegndi herþjónustu í bandaríska varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.
Maðurinn heitir Scottie Lee Martinez og er 38 ára. Hann játaði að hafa tekið myndir af tveimur börnum, 5 ára og 11 ára börnum, í kynferðislegum athöfnum. Þá játaði hann að hafa einhverntímann á tímabilinu frá 2001 til 2004 beitt barn á aldrinum 7-9 ára kynferðislegu ofbeldi.
Á vefnum wavy.com er haft eftir Jerome B. Friedman, dómara, sem kvað upp dóminn, að þetta væri alvarlegasta kynferðisbrotamál gegn börnum sem hann hefði séð á 26 ára ferli sem dómari.