Flak skips sem strandaði í Bakkafjöru 6. desember 1920 er við það að hverfa í sandinn. Enn sést þó lítillega í flakið, eins og myndir sem teknar voru úr þyrlu Landhelgisgæslunnar bera með sér.
Um er að ræða flak danska flutningaskipsins Dragör sem var fjórmastra seglskip. Skipið strandaði í Bakkafjöru í desember árið 1920 þegar það var á leið frá frá Kaupmannahöfn til Ísafjarðar þar sem lesta átti það með fiski til útflutnings. Í áhöfn skipsins voru 11 menn og björguðust þeir allir. Skipið var smíðað í Danmörku árið 1917.
Í frétt Morgunblaðsins 8. desember 1920 segir m.a.: „Skipið er svo hátt uppi í fjöru, að gengið varð út í það þurrum fótum um fjöru í gær. Eru því lítil líkindi til að því verði náð út, þó enn sé það óskemt [svo] að öllu leyti.“ Reyndust það orð að sönnu því enn hvílir skipið í sandinum. Á vef Landhelgisgæslunnar kemur fram að frá flakinu og til sjávar eru um 410 metrar.