Varðskipið Ægir var nýverið við bruna-, reykköfunar- og sjúkraflutningaæfingar með danska varðskipinu Triton á Kalseyjarfirði í Færeyjum, í sunnan slagviðri.
Fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar að æfingin hafi hafist á að tvö reykköfunarteymi frá Triton hafi sótt slasaða og slökkt ímyndaðan eld í ljósavélarúmi Ægis. Það hafi gengið að óskum og hinir „slösuðu“ hafi verið fluttir yfir í Triton til frekari aðhlynningar.
Léttabátur Tritons hafi séð um alla flutninga milli skipa, sem hafi verið gert til að menn fái meira út úr æfingunni en reykköfunina eina og sér.
Segir á vef Gæslunnar að eftir að allir eldar höfðu verið slökktir og slasaðir fengið fyrstu hjálp hafi Triton látið reka og Ægir hafi æft töku skips í tog. Í þess háttar aðgerðum séu æfð stjórntök skipsins í aðdraganda og upphafi dráttar, notkun línubyssu og allur undirbúningur s.s. samsetning dráttarbúnaðar, tildráttartaugar o.fl.