Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og þáverandi sjávarútvegsráðherra, segir að sér hafi brugðið þegar mótmælendurnir þrjátíu mættu í Alþingishúsið. Hann hafi ekki verið óttasleginn en heimsóknin hafi fremur komið á óvart. Þetta kom fram við aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem ákærðir eru m.a. fyrir árás á Alþingi.
Einar sagði að sér hefði verið ljóst að mikið gengi á. Mótmæli hefðu verið fyrir utan þinghúsið en það hafi verið vanalegt á þessum tíma og ekki haft teljandi áhrif á þingstörf. Heimsókn mótmælenda hefði hins vegar leitt til þess að þingfundi var frestað með verið var að ná tökum á málinu. Hann sagði lætin þó ekki hafa staðið lengi yfir.
Spurður um aðra atburði, s.s. grjótkast og brotnar rúður í þinghúsinu, sagði Einar K. að oft á tíðum hefði verið óþægilegt að vera þingmaður í þessari aðstöðu.
Gert hefur verið hlé á aðalmeðferðinni til kl. 13.15. Aðeins á eftir að leiða fyrir dóminn tvö vitni en útlit er fyrir að dagurinn í dag verði því stuttur. Munnlegur málflutningur fer svo fram á morgun.