Fréttaskýring: Eignarnám gæti orðið dýrt

Magma Energy keypti 98,5% eignarhlut í HS Orku í fyrra. …
Magma Energy keypti 98,5% eignarhlut í HS Orku í fyrra. Aðrir hluthafar eru Garður, Grindavík, Reykjanesbær og Vogar með 1,47%. mbl.is/Ómar

Ekki er útilokað að ríkið taki 98,53% hlut Magma Energy í HS Orku eignarnámi. Ríkisstjórnin rær að því öllum árum að „endurheimta forræðið“ yfir HS Orku eins og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra orðaði það í viðtali við Mbl.is í gær og ein af þeim leiðum sem ræddar hafa verið er eignarnám.

Slík aðgerð gæti hins vegar reynst ríkiskassanum dýr enda sagði Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi á mánudag að þótt hún útilokaði ekki eignarnám þá væri „skynsamlegra í alla staði, varðandi þá skaðabótakröfu sem gæti komið í kjölfarið, að menn reyni samningaleiðina áður við forustumenn Magma“.

Ber að greiða fjárhagslegt tjón

Eignarrétturinn er friðhelgur á Íslandi samkvæmt stjórnarskránni en engu að síður er möguleikinn á eignarnámi fyrir hendi að þremur skilyrðum uppfylltum. Þau eru í fyrsta lagi að hagsmunir almennings séu í húfi, í öðru lagi að lagaheimild sé til staðar fyrir eignarnáminu og í þriðja lagi að fullt verð sé greitt fyrir það.

Heildarfjárfesting Magma Energy í HS Orku var 33 milljarðar að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra Magma, og yrði bótaskylda ríkisins vegna eignarnámsins því væntanlega aldrei lægri en það, en líklega hærri.

Samkvæmt meginreglu um ákvörðun bóta við eignarnám er bætt fyrir fjárhagslegt tjón, bæði vegna missis eignaréttinda og einnig fyrir það óhagræði sem leiðir til fjárhagslegs tjóns. Karl Axelsson, hrl. og dósent, segir að fleira myndi því hanga á spýtunni en aðeins kaupverðið þegar greiða þyrfti bætur fyrir eignarnámið. „Það þarf að borga til fulls sem og annan kostnað sem eignarnámsþolinn, þ.e. Magma, verður fyrir.“

Varði ekki almannaheill

Víkur þá að því skilyrði sem sett er í stjórnarskrá að engan megi þvinga til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji.

Ásgeir Margeirsson er þeirrar skoðunar að eignarhald Magma Energy varði ekki almannaheill. „HS Orka framleiðir um það bil 9% af orku á markaðnum, hitt er í eigu ríkis og sveitarfélaga, þannig að opinberir aðilar hafa tögl og hagldir á orkumarkaði frá a til ö. Þannig að við teljum að þau rök standist ekki að almannahagsmunir séu undir. Hins vegar tel ég að það muni hafa gríðarlega fælandi áhrif á fjárfestingu í þessu landi ef þessu yrði beitt og ég veit dæmi þess.“ Steingrímur J. Sigfússon gaf þó lítið fyrir þessi rök í gær og sagði það ekki rétta túlkun að erlendar fjárfestingar væru eina forsenda hagvaxtar.

Almenningsþörfin er ekki skilgreind nánar í lögum og að sögn Karls Axelssonar hafa dómstólar viðurkennt að löggjafinn hafi nokkuð rúmt mat á því. „Þannig að þau rök kynnu nú að ganga, en það þarf að vera einhver málefnaleg skírskotun sem væntanlega yrði þá sú að það séu einhverjir almannahagsmunir fólgnir í því að þessi staða komi ekki upp varðandi eignarhald erlendra aðila.“

Jóhanna Sigurðardóttir ítrekaði á Alþingi á mánudag að engin ákvörðun hefði verið tekin um að fara í eignarnám en ýjaði að því að sú leið kynni að verða farin að samningaleiðinni fullreyndri.

Viljugir til viðræðna við ríkið

Ásgeir segir að ýmsar þreifingar hafi verið um það annars vegar að breyta leigusamningum um afnot af auðlindum og hins vegar um að Magma veiti ríkinu hugsanlega forkaupsrétt að HS Orku. „Við erum sem sagt mjög viljugir til viðræðna við ríkið.“

Sérstök lög sett um Deildartunguhver

Karl Axelsson segir að setja þyrfti sérstök lög um eignarnám í HS Orku ef til þess kæmi þar sem engin almenn heimild sé fyrir því í lögum, líkt og er í tilfelli Vegagerðarinnar þegar kemur að eignarnámi lands til vegalagningar.

„Tæknilega séð sé ég ekki annað en að þetta væri allt hægt, en ekki án þess að setja þá sérstök lög um eignarnám í þessum eignarhlut,“ segir Karl. Sjaldgæft er að sögn Karls að sett séu sérstök lög af þinginu um að taka eigi ákveðin verðmæti eignarnámi, en þess séu þó dæmi og má þar meðal annars nefna þegar hluti jarðarinnar í Deildartungu í Borgarfirði var tekinn eignarnámi árið 1979 ásamt jarðhitaréttindum í Deildartunguhver.

Ríkissjóði var þá gert heimilt samkvæmt lögum að taka verðmætin eignarnámi og afhenda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar þau til afnota eftir því sem almenningsþörf krefði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert