Engin áform eru um að breyta íslenskum lögum eða reglugerðum til að stofna greiðslustofnun í landbúnaði eða taka upp byggðaáætlun að hætti Evrópusambandsins (ESB), fyrr en aðild að sambandinu hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og formlega staðfest af Íslandi og ESB.
Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag segir, að þetta komi fram í svörum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við spurningum ESB í kafla 11 um landbúnað og byggðamál. Svörin hafa verið send samninganefnd Íslands gagnvart ESB, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. ESB spyr m.a. hvernig og hvenær Ísland hyggist aðlaga lagaumhverfið sitt hvað varðar stofnun greiðslustofnunar og fleiri breytingar varðandi stjórn- og eftirlitskerfi landbúnaðarins.
Í svari ráðuneytisins segir m.a. að verulegur munur sé á lögum og stjórnkerfi landbúnaðar á Íslandi og í ESB. Ísland þyrfti að grípa til veigamikilla lagabreytinga auk breytinga í stjórnsýslu og stækkunar stofnanakerfis til að laga sig að landbúnaðarkerfi ESB. Ráðuneytið telur enga þörf á því til að framfylgja núverandi landbúnaðarstefnu.