Lögreglu gert ókleift að sinna hlutverki sínu

Lögreglufélag Akraness segir að niðurskurður á fjárveitingu til embættis sýslumannsins á Akranesi verði til þess að lögreglunni á Akranesi sé gert ókleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Segir félagið, að markmið ríkisstjórnar Íslands um að verja grunnþjónustu séu marklaus.

Í ályktun félagsins er lýst hvernig dregið hefur verið úr starfsemi lögregluembættisins og nú leiði enn frekari sparnaðarkröfur til þess að sólarhringsvaktir verða aflagðar ekki síðar en 1. mars.

„Í stað átta lögreglumanna sem hafa sinnt almennri löggæslu og brugðist við neyðarútköllum á svæðinu allan sólarhringinn eiga nú sex lögreglumenn að sinna sama hlutverki. Viðbragðstími mun aukast og svæðið verður eftirlitslaust að nóttu sem er einmitt sá tími sem afbrotamenn velja sér til iðju sinnar," segir m.a. „Ríkisstjórn Íslands hefur með auknum sparnaðarkröfum sínum á lögregluna tekið þá ákvörðun að íbúar Akraness og nágrennis skuli búa við aukið óöryggi og afbrotamenn skuli fá frjálsari hendur við störf sín. Ein af grunnþörfum hvers samfélags er öryggi, en samfélag sem ekki er öruggt getur ekki þrifist svo vel sé. Með þessum ráðstöfunum hefur ríkisstjórn Íslands brugðist þegnum þessa lands, skapað óöryggi sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið.  Það er krafa okkar lögreglumanna á Akranesi að fjárveitingar til löggæslunnar verði endurskoðaðar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert