Lögreglumenn neita harðræði

Lögreglan á Austurvelli.
Lögreglan á Austurvelli. mbl.is

Líkt og við mátti að búast var framburður lögreglumanna við aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum, sem m.a. eru ákærðir fyrir árás á Alþingi, töluvert frábrugðin framburði sakborninga. Til að mynda neituðu þeir alfarið að harðræði hefði verið beitt við handtökur í Alþingishúsinu.

Sakborningar báru nokkrir við fyrir dómi í gær að lögreglan hefði farið fram með offorsi þegar inn í Alþingishúsið var komið 8. desember 2008. Þá hafi nokkur fjöldi verið inni í húsinu. Lýstu nokkrir þeirra að lögregla hefði lagst á þá og sett hné í mjóbak við handtöku.

Framburður lögreglumanna var um margt öðruvísi og virtist sem lögregla hafi náð tökum á ástandinu tiltölulega fljótt, skipulega vísað mönnum út úr Alþingishúsinu og handtekið þá sem ekki hlýddu fyrirmælum. Athygli vakti þó að enginn þeirra lögreglumanna sem komið hafa fyrir dóminn í morgun hefur getað sagt til um það með fullri vissu hver hafi stjórnað aðgerðum í Alþingishúsinu.

Þeir báru þó við að fyrirmælin hafi verið eindregin, að vísa fólkinu út úr Alþingishúsinu. Eins og einn orðaði það: „Óæskilegt fólk var komið á þingpalla eða inn í húsið.“

Enn á eftir að taka skýrslur yfir fleiri lögreglumönnum, og ráðgert að aðalmferðinni haldi áfram til kl. 17 í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert