Umhverfisráðuneytið, í samráði við Umhverfisstofnun, aflar nú upplýsinga um rusl og úrgang á ströndum hér við land og um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til við hreinsun stranda á undanförnum árum.
Hefur ráðuneytið sent öllum sveitarfélögum, sem eiga land að hafi, bréf þar sem þau eru beðin um að leggja mat á það hvort rusl á ströndum sé útbreitt vandamál innan sveitarfélagsins og hvort það ógni lífríki hafs og stranda, heilsu manna eða hafi önnur neikvæð áhrif á notkun strandarinnar.
Ráðuneytið segir, að nokkur fjöldi svara hafi þegar borist og af þeim megi ætla, að lang flest
sveitarfélög hreinsi sínar strendur reglulega. Talsverður kostnaður fylgi því fyrir
sveitarfélög að hreinsa strendur á hverju ári, þrátt fyrir að oft sé unnið að
hreinsuninni í samvinnu við sjálfboðaliðasamtök, t.d. Bláa herinn, Seeds,
Veraldarvini og Ungmennafélag Íslands, og einnig víða með virkri þátttöku
unglingavinnu sveitarfélaga.