Rekinn fyrir að liggja á pósti

mbl.is

Um 300 einstaklingar í Grafarvogi fengu ekki póstinn sinn á tilsettum tíma vegna vanrækslu starfsmanns Íslandspósts, að sögn Ágústu Hrundar Steinarsdóttur, forstöðumanns markaðsdeildar fyrirtækisins.

Starfsmaðurinn sem um ræðir var rekinn á fyrri hluta síðasta árs, og þeir sem fyrir röskun hafa fengið skriflega afsökunarbeiðni frá fyrirtækinu. 

Í kjölfar kvartana kom í ljós að póstburðarmaðurinn hafði ekki borið út allan þann póst sem ætlast var til af honum. Nýverið, löngu eftir uppsögn starfsmannsins, fannst síðan töluvert magn af pósti sem hann hafði komið fyrir í bílskotti. 

Að sögn Ágústu er pósturinn sem nú fannst að langmestu leyti gluggapóstur. Ætla má að einhverjir hafi orðið fyrir óþægindum vegna þessa. Ágústa segir pósti hafi ekki verið haldið eftir handahófskennt, heldur hafi ekki verið borið út heilu dagana.  

Íslandspósti er kunnugt um tvö tilfelli þess að viðskiptavinir hafi liðið fyrir póstskortinn. Í öðru tilfellinu var um að ræða boðskort í veislu, en í hinu boð um skólavist.

Til stendur að kæra póstburðarmanninn og fara fram á bætur. Ekki liggur fyrir á hvaða grundvelli starfsmaðurinn fyrrverandi verður kærður.

Fram kom í DV í dag, að Íslandspóstur hefði sent íbúum í hverfi 112 afsökunarbréf vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka