Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var á fundi með oddvitum ríkisstjórnarinnar, þeim Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra upplýstur um það í gærmorgun, að ferlið um sameiningu sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytis í einu atvinnuvegaráðuneyti væri komið á fulla ferð.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins greindu þau Jóhanna og Steingrímur Jóni frá því að sérstakur kynningarfundur um ferlið og sameiningaráformin yrði haldinn á föstudag, 21. janúar.
Morgunblaðið hefur upplýsingar um að hér sé um sérstakan þrýsting frá Samfylkingunni að ræða í þessu máli, þar sem forystumenn flokksins telji að Jón Bjarnason hafi mjög þvælst fyrir ESB-aðildarumsókn Íslands og því aðildarferli, sem hann og mjög margir VG-félagar telja að hafið sé.