Umboðsmaður Alþingis hefur sent forsætisráðherra bréf þar sem hann óskar eftir upplýsingum um hvort það sé enn afstaða forsætisráðuneytisins að ekki standi til að setja nánari ákvæði í lög um sölu ríkisins á eignarhlutum í þeim fyrirtækjum og félögum sem það á eða kann að eignast.
Minnir umboðsmaður á, að í bréfi ráðuneytisins frá 9. janúar 2009 segi að komi til einkavæðingar ríkisfyrirtækja megi búast við því að tillögur starfshóps um endurskoðun verklagsreglna um útboð og sölu ríkiseigna verði teknar til athugunar á ný.
Vill umboðsmaður svar fyrir 21. janúar.
Þá hefur umboðsmaður skrifað borgarstjórn Reykjavíkur bréf og óskað eftir upplýsingum um hvað hefði gerst í málefnum sem varða stefnumörkun fyrir Orkuveitu Reykjavíkur.
Vísar umboðsmaður í bréfinu til þess, að árið 2007 hefðu verið teknar stórar og afdrifaríkar ákvarðanir um Orkuveituna án nauðsynlegrar umræðu eða samþykkis lýðræðislega kjörinna fulltrúa.