Þingmenn ræddu nokkuð um atvinnumál í umræðum um stjórn þingsins. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði m.a. að umtalsefni gjaldþrot fiskvinnslunnar Eyrarodda á Flateyri og sagði þetta enn eitt áfallið fyrir fyrrum blómlegt sjávarpláss.
Sagði Ólína að Eyraroddi hefði verið settur á stofn til að bjarga byggðarlaginu þegar útgerðarmaðurinn á staðnum seldi allan sinn kvóta og flutti suður fyrir þremur árum. Þar með hefðu 90% aflaheimilda byggðarlagsins runnið út af svæðinu.
„Hér sjáum við afleiðingar kvótakerfisins í hnotskurn. Aflaheimildir hafa safnast upp á fárra hendur sem láta ekkert laust. Kerfið er lokað fyrir nýliðum, það býður ekki upp á atvinnufrelsi og kvótalaus fyrirtæki eins og Eyraroddi visna upp," sagði Ólína og bætti við að alfrjálsar handfæraveiðar smábáta hefðu getað breytt miklu.
Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði að gjaldþrot Eyrarodda endurspeglaði vanda sjávarbyggða vítt og breytt um landið, hversu lítið öryggi þessara byggða sé og það hve íbúar þessara svæða séu berskjaldaðir fyrir því að atvinnuréttindin geti farið frá þeim á einni nóttu.
Jón sagði, að varðandi Flateyri hefðu verið teknar og fullnýttar þær heimildar, sem séu til úthlutunar byggðakvóta. Þær hefðu ekki verið bundnar við Eyrarodda til útgerðir á staðnum og því gætu aðrar útgerðir nýtt sér þá úthlutun. Boltinn væri hjá sveitarfélaginu og skoraði Jón á íbúana að nýta sér þessar aflaheimildir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að ástandið á Flateyri væri byrtingarmynd þeirra galla sem væru á kvótakerfinu. „Nú skulum við taka höndum saman og standa með íbúum Flateyrar og breyta þessu óréttláta kerfi svo við sé unandi í þessu landi," sagði hún.