Landspítalinn var rekinn með 52 milljóna króna tekjuafgangi á árinu 2010 að því er kemur fram í bráðabirgðauppgjöri spítalans sem nú liggur fyrir.
Heildarvelta Landspítala í fyrra var 40,1 milljarður króna og þar af nam rekstrarframlag ríkissjóðs 33,1 milljarði. Ekki var um að ræða viðbótarfjárframlag til spítalans í fjáraukalögum fyrir árið 2010, að því er fram kemur í tilkynningu frá spítalanum.
Tekjuafgangur upp á 52 milljónir er ríflega 0,1% af heildarveltu.
Stærsti einstaki útgjaldaliður ársins var launagjöld upp á 25,5 milljarða sem er 1,2 milljörðum lægri en árið 2009.
„Á árinu 2010 var LSH gert að lækka kostnað sinn um 3.400 milljónir króna. Það tókst með mikilli vinnu, eljusemi og fagmennsku starfsmanna. Þjónusta spítalans hefur breyst nokkuð á þessu ári en við höfum á sama tíma náð að standa vörð um öryggi sjúklinga. Þessi mikli árangur hefði aldrei náðst nema með framúrskarandi dugnaði og samheldni starfsfólks,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, í tilkynningu.