Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að afstaða hans til aðildar að Evrópusambandsins væri óbreytt. „Ef eitthvað er hef ég á margan hátt sannfærst enn betur um að fleira mæli með því að það þjóni ekki okkar hagsmunum að ganga í Evrópusambandið," sagði Steingrímur.
Hann sagði, að gjaldmiðill Íslendinga og hagstjórnartæki væru að gagnast þjóðinni vel til að vinna sig út úr kreppunni.
Steingrímur lét þessi ummæli falla í fyrirspurnartíma á Alþingi þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði hann um ESB-viðræðurnar.
Steingrímur sagði að VG líti á viðræðurnar sem umsóknarferli og flokkurinn styddi það ekki að um sé að ræða aðlögun fyrirfram áður en niðurstaða fáist af hálfu þjóðarinnar. Hins vegar þurfi að liggja fyrir áætlanir um það hvernig slík aðlögun fari fram ef aðild verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.